Handbolti

Ísland tapaði bronsleiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Logi Geirsson skoraði sex mörk fyrir Ísland í dag.
Logi Geirsson skoraði sex mörk fyrir Ísland í dag.
Ísland varð í fjórða sæti á minningarmótinu um Staffan Holmquist sem fram fer í Svíþjóð. Ísland tapaði í dag fyrir Túnis, 35-31, í leiknum um bronsið.

Ísland hafði yfirhöndina fyrstu 40 mínúturnar í leiknum og var með tveggja marka forystu í hálfleik, 15-13.

Strákarnir fóru hins vegar illa með nokkur færi snemma í síðari hálfleik og misnotuðu til að mynda bæði vítakast og hraðaupphlaup. Þetta færðu Túnisar sér í nyt og náðu frumkvæðinu.

Túnis komst svo í þriggja marka forystu þegar þrjár mínútur voru eftir og ljóst var að róðurinn yrði þungur fyrir íslenska liðið þá.

Margir strákanna áttu ágætan leik í dag og þá sérstaklega Björgvin Gústavsson í markinu. Varnarleikur íslenska liðsins var á köflum ágætur en vörnin réð þó illa við skyttur Túnisa undir lok leiksins.

Ásgeir Örn og Logi Geirsson skoruðu sex mörk hver í leiknum og Róbert Gunnarsson fimm.

Aron Pálmarsson og Einar Hólmgeirsson gátu ekki leikið með íslenska landsliðinu vegna meiðsla. Ragnar Óskarsson og Hreiðar Levý Guðmundsson meiddust báðir í leiknum í dag.

A- og B-lið Svía mætast í úrslitaleiknum síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×