Handbolti

Skyldusigur á Belgum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr fyrri leik Íslands og Belgíu í undankeppni EM 2010.
Úr fyrri leik Íslands og Belgíu í undankeppni EM 2010.

Ísland vann átta marka sigur á Belgíu ytra í undankeppni EM 2010 sem fer fram í Austurríki á næsta ári, 33-25.

Ísland var án margra lykilleikmanna sem eru frá vegna meiðsla og þá hefur Ólafur Stefánsson enn ekki gefið kost á sér í landsliðið á ný.

Óhætt er að segja að íslenska liðið hafi verið langt frá sínu besta í leiknum en staðan í hálfleik var 15-14, Íslandi í vil. Fyrri leik liðanna í Laugardalshöllinni lauk með nítján marka sigri Íslands, 40-21.

Ísland skoraði aðeins eitt mark fyrstu sjö mínútur leiksins en náði sér fljótlega á strik og náði 5-2 forystu. En Belgar komu sér aftur inn í leikinn þrátt fyrir að vera manni færri og var það mjög einkennandi fyrir gang leiksins fyrstu 40 mínúturnar.

Alexander Petersson var hvíldur undir lok fyrri hálfleiks og þá náðu Belgar enn og aftur að koma sér inn í leikinn og minnka muninn í eitt mark. Þeir náðu svo að jafna metin í upphafi síðari hálfleiksins í stöðunni 16-16.

En þá sagði Alexander stopp. Hann skoraði fjögur af næstu sjö mörkum Íslands sem breytti stöðunni í 23-17 og gerði þar með út um leikinn. Auk þess var hann duglegur að gefa stoðsendingar á félaga sína og stela boltum í vörninni. Hann var í raun allt í öllu í liði Íslands.

Ísland náði mest tíu marka forystu þegar að tíu mínútur voru eftir en í stað þess að auka muninn enn frekar gáfu þeir íslensku eftir og Belgar minnkuðu muninn í átta mörk.

Belgía - Ísland 25 - 33



Mörk Íslands (skot): Guðjón Valur Sigurðsson 10/4 (13/5), Alexander Petersson 9 (11), Róbert Gunnarsson 4 (4), Vignir Svavarsson 4 (4), Rúnar Kárason 3 (4), Ragnar Óskarsson 3 (6), Sigurbergur Sveinsson (1), Andri Stefan (1), Aron Pálmarsson (4).

Varin skot: Björgvin Gústavsson 8 (25, 32%), Hreiðar Guðmundsson 3 (11, 27%).

Hraðaupphlaup: 11 (Guðjón Valur 4, Alexander 4, Vignir 3).

Fiskuð víti: 5 (Guðjón Valur 2, Vignir 1, Róbert 1, Ragnar 1).

Utan vallar: 8 mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×