Fótbolti

Lassana Diarra: Ég lærði ekkert hjá Wenger

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lassana Diarra í leik með Real Madrid á móti Liverpool.
Lassana Diarra í leik með Real Madrid á móti Liverpool. Mynd/GettyImages

Lassana Diarra ber ekki sömu virðingu fyrir Arsene Wenger, stjóra Arsenal og margir aðrir. Diarra tjáði sig um samskiptin fyrir franska stjórann í viðtali við spænska blaðið El Pais.

„Það er eins og ég hafi aldrei spilað hjá Arsenal. Ef þú hefði ekki minnt mig á það þá hefði ég ekki munað eftir því. Ég er búinn að eyða út úr hausnum mínum tímanum hjá Arsenal," sagði Lassana Diarra en hann kom til Arsenal frá Chelsea í september 2007 og var þangað þar til í janúar 2008 þegar hann gekk til liðs við Portsmouth.

En hvað um áhrif Wenger á hann sem leikmann. „Áhrif á mig, engin. Ég lærði ekkert af Wenger nema það að hann kenndi mér að efast um alla hluti. Ég spilaði aðeins 15 leiki og við náðum ekki vel saman," sagði Diarra.

„Wenger talaði aldrei við mig fyrr en ég sagði honum að ég væri á förum. Hann talaði við aðra leikmenn en ekki mig," sagði Diarra en hann leikur nú stórt hlutverk hjá spænska stórliðinu Real Madrid.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×