Handbolti

Ráð Wilbek til landsliðsmanns: Hættu í Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen í landsleik á móti Frökkum.
Mikkel Hansen í landsleik á móti Frökkum. Mynd/AFP

Ulrik Wilbek, þjálfari danska landsliðsins í handbolta, mótherja Íslands í EM í Austurríki í janúar, hefur ráðlagt danska landsliðsmanninum Mikkel Hansen að hætta að hjá spænska stórliðinu Barcelona og koma heim til Danmerkur. Hansen fær ekki mörg tækifæri hjá spænska liðinu þessa dagana.

„Þetta snýst um hvað hentar best fyrir 22 ára gamlan strák. Hann þarf að fá að spila mikið og það væri í spilunum ef hann myndi koma aftur til Danmerkur. Það væri alls ekkert slæmt fyrir hann að koma heim, því þar fengi hann að spila mikið á móti góðum liðum og fengi nokkra Evrópuleiki að auki," sagði Ulrik Wilbek við BT.

„Það er mitt stærsta verkefni sem landsliðsþjálfara að koma honum aftur á toppinn," segir Ulrik Wilbek sem vill meina að með Hansen í stuði þá geti danska landsliðið náð langt á EM.

Mikkel Hansen er 22 ára og 196 sm vinstri skytta sem kom til Barcelona frá GOG Svendborg í júní 2008. Hann vakti mikla athygli þegar hann tryggði Dönum 25-24 sigur á Rússum á Ólympíuleikunum í Peking með því að skora beint úr aukakasti á lokasekúndu leiksins. Mikkel Hansen hefur skorað 113 mörk í 33 landsleikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×