Handbolti

Aron: Kraftur og áræðni í liðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Kristjánsson, þjálfari hauka.
Aron Kristjánsson, þjálfari hauka. Mynd/Daníel

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var vitanlega hæstánægður með átta marka sigur sinna manna á pólska liðinu Wisla Plock í EHF-bikarkeppninni í dag.

Haukar tryggðu sér sæti í þriðju umferð keppninnar með sigrinum en fyrri leik liðanna lauk með tveggja marka sigri Wisla í Póllandi.

„Við vorum að spila virkilega góða framliggjandi vörn og Birkir Ívar var að verja vel í markinu," sagði Aron. „Svo var það þessi kraftur og áræðni sem var ríkjandi í sókninni sem skiptir svo miklu máli. Sigurbergur og Björgvin voru frábærir í sókninni, Freyr barðist eins og ljón allan leikinn, Elías Már kom virkilega sterkur inn og Gunnar Berg kom með þvílíka orku í varnarleikinn. Það áttu í raun allir frábæran leik."

Haukar hafa ekki náð sér vel á strik í fyrstu leikjum sínum í deildinni í haust. „Þetta sýnir að við getum vel spilað svona," sagði Aron. „Þetta er það sem okkur hefur skort í deildinni. Hins vegar virðist það vera landlægt hér á landi að ef lið taka þátt í Evrópukeppninni þá verða þau alltaf hálfléleg í deildinni inn á milli."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×