Körfubolti

NBA í nótt: Miami vann í framlengingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwyane Wade fagnar sigrinum í nótt.
Dwyane Wade fagnar sigrinum í nótt. Nordic Photos / Getty Images
Miami vann góðan sigur á New Jersey í framlengdum leik í NBA-deildinni í nótt, 101-96. Dwyane Wade var sem fyrr lykilmaður í sigri Miami.

Wade skoraði 29 stig í leiknum og varði þrjú skot á lokamínútum leiksins. Miami lenti mest sextán stigum undir í leiknum en náði á endanum að innbyrða sigur.

New Jersey átti möguleika á að jafna metin í stöðunni 99-96 en Vince Carter hitti ekki úr þriggja stiga skoti sínu.

Keyon Dooling skoraði 23 stig fyrir New Jersey og Carter var með 20.

San Antonio vann Philadelphia, 108-106, í æsispennandi leik. Það var Tony Parker sem tryggði San Antonio sigurinn með körfu á lokasekúndu leikins. Parker var með fimmtán stig og tíu stoðsendingar í leiknum en Tim Duncan var stigahæstur með 26 stig.

Atlanta vann Houston, 103-100. Þar tryggði Mike Bibby Atlanta sigurinn með þriggja stiga körfu þegar ein og hálf sekúnda var eftir. Josh Smith var stigahæstur með 29 stig fyrir Atlanta.

Minnesota vann Chicago, 102-92. Randy Foye var með 21 stig, Al Jefferson átján og fjórtán fráköst.

Denver vann New Orleans, 105-100. Denver var með 26 stiga forskotí þriðja leikhluta og var næstum búinn að missa leikinn úr höndum sér. Carmelo Anthony skoraði 22 stig fyrir Denver.

Indiana vann Sacramento, 122-117. Danny Granger skoraði 35 stig, þar af þrettán í fjórða leikhluta. Kevin Martin skoraði 45 stig fyrir Sacramento en það dugði ekki til.

Charlote vann Milwaukee, 102-92. Gerald Wallace skoraði 24 stig fyrir Charlotte og Boris Diaw 21.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×