WBA-léttveltivigtar meistarinn Andreas Kotelnik er hvergi banginn fyrir bardaga sinn gegn ungstirninu Amir Khan annað kvöld í MEN-höllinni í Manchester.
Kotelnik er búinn að fá sig fullsaddann af yfirlýsingum Khan fyrir bardagann og hefur heitið því að láta Bretann unga borga fyrir það dýrum dómi inni í hringnum. Hann viðurkennir að Khan sé efnilegur en hafi einnig sína veikleika.
„Khan er fínn hnefaleikamaður. Hann er hraður en hefur líka sína veikleika. Í bardaganum sem ég sá með honum þá fannst mér áberandi að hann var ekki sterkur og ég veit ekki heldur hvað hann þolir af höggum," segir Úkraínumaðurinn í samtali við Sky Sports fréttastofuna.