Handbolti

Sendiherrann reddaði United-derhúfu fyrir Hreiðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hreiðar Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu.
Hreiðar Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Aleksandar Djorovic

Það var sendiherra Íslands í Eistlandi sem kom Hreiðari Guðmundssyni markverði til bjargar í landsleiknum í dag með því að útvega honum Manchester United-derhúfu.

Þetta sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í samtali við Vísi í dag. Leiknum í dag lauk með jafntefli, 25-25, en Ísland náði þar með efsta sæti riðilsins þar sem að Noregur tapaði í Makedóníu í dag.

Það hlýtur að teljast afar óvenjulegt að leikmenn þurfi að hafa áhyggjur af sólinni í handbolta enda íþróttin leikin innanhúss.

„Þetta er eitthvað sem ég hef aldrei upplifað áður á mínum ferli," sagði Guðmundur. „Í seinni hálfleik skein sólin í andlitið á Hreiðari og varnarmönnunum. Við mótmæltum þessu mikið og kröfðumst þess að leikurinn yrði stöðvaður. En það var ekki hlustað á okkur."

„Hreiðar varði ekki eitt einasta skot á þessum tíma. Hann og varnarmennirnir voru algjörlega blindaðir af sólinni. Það var ekki möguleiki að spila við þessar aðstæður."

„En þá ákveður Hannes Heimisson sendiherra, sem var á leiknum með konu sinni og börnum, að hlaupa út í bíl því með honum var drengur sem átti Manchester United-derhúfu. Húfunni var svo komið á okkur. Hannes var ótrúlega fljótur að hugsa og hann reddaði þessu fyrir okkur," sagði Guðmundur og hló enda enn gáttaður á þessu öllu saman.

„Þetta var alveg fáránlegt. En ég held að þetta hafi þó ekki verið með ráðum gert hjá þeim," bætti hann við. „En ég held alveg örugglega að Hreiðar sé ekki United-maður.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×