Handbolti

Ísland í sterkum riðli í undankeppni EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslenska landsliðið í leik gegn Noregi í haust.
Íslenska landsliðið í leik gegn Noregi í haust. Nordic Photos / AFP

Í dag var dregið í riðla fyrir undankeppni EM kvenna í handbolta sem fer fram í Danmörku og Noregi í desember á næsta ári.

Ísland var í þriðja styrkleikaflokki í drættinum og lenti í riðli með Frakklandi, Austurríki og Bretlandi eða Finnlandi.

Bretland og Finnland munu mætast í umspili í september næstkomandi um hvort liðið kemst í sjálfa undankeppnina. Riðlakeppnin sjálf hefst svo um miðjan október og lýkur í maí á næsta ári.

Tvö efstu liðin í hverjum riðli komast áfram í sjálfa úrslitakeppnina ásamt gestgjöfunum, Danmörku og Noregi.

Þetta er nýtt fyrirkomulag á undankeppni stórmóts í handbolta kvenna en er í samræmi við fyrirkomulagið á undankeppni EM 2010 í handbolta karla.

Frakkar urðu heimsmeistarar árið 2003 og hafa tvívegis hlotið brons á EM - 2002 og 2006. Frakkar komust í úrslitakeppni EM í fyrra en töpuðu nokkuð óvænt öllum sínum leikjum í riðlakeppninni. Þeir urðu í fimmta sæti á Ólympíuleikunum í Peking í fyrra.

Austurríki hefur verið meðal þátttökuþjóða í öllum úrslitakeppnum EM og HM síðan 1982. Hins vegar hefur liðinu ekki tekist að komst inn á síðustu tvenna Ólympíuleika.

Liðið varð í sextánda sæti á síðasta HM, árið 2007, og varð svo í ellefta sæti á EM í fyrra. Austurríki hefur tvívegis komist á verðlaunapall á stórmótum - á HM 1999 og EM 1996.

Leikið verður í fimm borgum í Noregi og Danmörku. Riðill Danmerkur verður leikinn í Álaborg og annar riðill í Randers í Danmörku. Noregsriðillinn verður leikinn í Lillehammer og annar í Larvik í Noregi. Útsláttarkeppnin og úrslitaviðureignirnar fara svo fram í Herning í Danmörku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×