Handbolti

HM: Serbar náðu jafntefli gegn Þjóðverjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mladen Bojinovic og Jens Tiedtke takast á í leiknum í dag.
Mladen Bojinovic og Jens Tiedtke takast á í leiknum í dag. Nordic Photos / AFP
Óvænt úrslit urðu í fyrstu umferð milliriðlakeppninnar á HM í handbolta í Króatíu í dag en heimsmeistarar Þjóðverja urðu að sætta sig við jafntefli, 35-35, gegn Serbum.

Fyrr í dag unnu Norðmenn góðan og mikilvægan sigur á spútnikliði Makedóníu, 29-27, en báðir þessir leikir eru í milliriðli 2.

Staðan í hálfleik í leik Þjóðverja og Serba var 19-16, Serbum í vil. Í síðari hálfleik náðu Þjóðverjarnir að koma sér betur inn í leikinn og höfðu forystu, 35-34, þegar hálf mínúta var til leiksloka. En þá jöfnuðu Serbar og þar við sat.

Þetta þýðir að Þýskaland er nú með fimm stig í riðlinum, Serbía þrjú og Noregur og Makedónía með tvö stig hvort.

Danir og Pólverjar mætast svo síðar í dag en Evrópumeistarar Dana eru með fjögur stig en Pólverjar ekkert.

Fjögur efstu liðin í hvorum milliriðli komast áfram í fjórðungsúrslit keppninnar.

Einum leik er lokið í A-riðli. Slóvakía vann sigur á Suður-Kóreu, 23-20, eftir að hafa verið með 15-12 forystu í hálfleik.

Suður-Kórea sá til þess að Spánverjar komust ekki í milliriðlakeppnina og þurfa því að keppa um hinn svokallaða forsetabikar ásamt öðrum liðum sem ekki komust í milliriðlakeppnina.

Spánverjar unnu í þeirri keppni stórsigur á Ástralíu í dag, 42-10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×