Úkraínumaðurinn Vitali Klitschko varði WBC-heimsmeistaratign sína í þungavigt í kvöld. Hann vann þá Juan Carlos Gomes á tæknilegu rothöggi í níundu lotu.
Bardaginn var frekar furðulegur. Klitschko var ákaflega ryðgaður í upphafi og Gomes, sem þykir ekki merkilegur bardagamaður, vann fyrstu lotuna. Klitschko virkaði á þeim tíma óöruggur og í litlu standi.
Hann hitnaði smám saman og tók yfir bardagann. Brytjaði andstæðing sinn niður í rólegheitum og í níundu lotu varð dómarinn að stöðva bardagann enda gat Gomes vart lyft höndunum lengur.
Hinn 37 ára gamli Klitschko fagnaði vel eftir bardagann en hann virðist ekki eiga mikið eftir í íþróttinni ef mið er tekið af frammistöðu hans í kvöld sem var ekki sannfærandi.