Viðskipti erlent

Belgar fá endurgreitt frá Kaupþingi í þessari viku

Þeir tæplega 16.000 Belgar sem áttu innistæður hjá Kaupþingi í Lúxemborg munu fá fé sitt endurgreitt í þessari viku, nánar tiltekið á föstudaginn kemur. Innistæðurnar hafa verið frosnar inni síðan í nóvember á síðasta ári.

Útborgunardagurinn var staðfestur í sameiginlegri yfirlýsingu frá bönkunum Credit Agricole og dótturbanka hans Keytrade Bank. Geta innistæðueigendurnir fengið fé sitt greitt hjá þessum tveimur bönkum.

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa stjórnvöld í Lúxemborg og Belgíu sameinast um að veita Kaupþingi í Lúxemborg lán upp á 320 milljónir evra til að standa straum af þessum greiðslum.

Fram kemur í yfirlýsingu frá fjármálaeftirliti Lúxemborgar að á sama tíma muni svissneskir innistæðueigendur hjá útibúi Kaupþings þar í landi einnig fá sitt fé greitt út.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×