Tenniskonan Maria Sharapova viðurkennir að hún eigi enn nokkuð í land með að ná fyrri styrk á tennisvellinum eftir að vera frá vegna axlarmeiðsla í hátt í ár.
Þessi fyrrum besta tenniskona heims féll úr leik í átta-manna úrslitum á Opna franska á dögunum en í gær vann hún kanadísku tenniskonuna Stephanie Dubois í Birmingham.
Sharapova hlakka mjög til þess að taka þátt á Wimbledon mótinu sem hefst eftir tvær vikur.
„Mér líður frábærlega og það er mjög gott að vera komin aftur á skrið og í andrúmsloftið í kringum stórmótin. Þetta var erfiður tími, að vera meidd í svona langan tíma, og sérstakt fyrir mig að koma ekki við tennisspaða í þrjá mánuði. Það hefur ekki gerst síðan ég var krakki. Fjölskyldan mín stóð hins vegar þétt við bakið á mér og studdi mig og hvatti mig áfram og það gerði endurhæfinguna bærilegri. Framtíðin á eftir að leiða í ljós hvort að ég komist aftur í mitt besta form. Það er það skemmtilega við þessa íþrótt, maður veit aldrei hvað verður," segir hin rússneska Sharapova sem vann Wimbledonmótið árið 2004.
Hinn 22 ára gamla Sharapova hefur unnið þrjú af fjórum „Grand-Slam" mótum á ferlinum en Opna franska mótið er það eina af stóru fjórum mótunum sem hún hefur ekki unnið.