Körfubolti

Magnús Þór: Þetta verður bara eintóm hamingja

Ómar Þorgeirsson skrifar
Magnús Þór Gunnarsson.
Magnús Þór Gunnarsson. Mynd/Arnþór

„Það er langt síðan allur þessi hópur er búinn að spila saman í þessarri keppni og við bíðum því spenntir eftir því að komast af stað aftur.

Þetta verður bara eintóm hamingja og við ætlum að sækja þessi tvö stig sem í boði eru gegn Dönum," segir bakvörðurinn Magnús Þór Gunnarsson hjá íslenska landsliðinu sem mætir Danmörku í fyrsta leik sínum í seinni umferð B-deildar Evrópukeppninnar í Danmörku í dag kl. 17.15.

„Þessi hópur er búinn að vera meira og minna saman síðan eftir Smáþjóðaleikana og við erum búnir að setja okkur markmið fyrir seinni umferðina og það verður örugglega ekkert mál að standa við þau.

Ef við erum raunsæir þá eigum við ef til vill ekki mikla möguleika gegn Svartfellingum en hina leikina ætlum við að vinna. Svo einfalt er það," segir Magnús Þór.

Íslenska liðið er án þeirra Hlyns Bæringssonar, Sigurðar Þorvaldssonar og Jakobs Arnar Sigurðarsonar en Magnús Þór segir að menn komi einfaldlega í manns stað.

„Við erum með mjög góðan hóp og þó svo að liðið sé aðeins lágvaxnara núna en áður þá þarf það ekki að breyta neinu. Við spilum þá bara hraðari bolta og verðum grimmari.

Nýju strákarnir eru að koma með mikinn kraft inn í þetta og ég hef enga trú á öðru en að þeir skili sínu," segir Magnús Þór að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×