Handbolti

Anna er hörkutól sem gefur ekki þumlung eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, til hægri, í leik með Stjörnunni í haust.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, til hægri, í leik með Stjörnunni í haust.

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir er búinn að ganga frá öllum sínum málum hjá Team Esbjerg og spilar væntanlega sinn fyrsta leik í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið mætir Slagelse á útivelli.

Esbjerg hefur tapað síðustu leikjum stór, með sextán mörkum á heimavelli á móti Viborg HK (21-37) og með sjö mörkum á útivelli á móti SK Aarhus (27-34) en bæði liðin eru meðal þriggja efstu liða í deildinni.

Esbjerg-liðið er sem stendur í 7. sæti en mótherjar kvöldsins í Slagelse hafa tapað öllum sínum leikjum og sitja á botni deildarinnar.

Það er fjallað um komu Önnu á heimasíðu félagsins og þar er meðal annars viðtal við þjálfaranum um íslensku landsliðskonuna.

„Ég er mjög ánægður með að félaginu tókst að finna leikmann til að leysa af Rikke Zachariassen sem mun missa af öllu tímabilinu vegna hnémeiðsla," sagði Jan Paulsen, þjálfari Esbjerg-liðsins. „Anna spilaði með Siri Seglem í Noregi og það mun hjálpa henni að aðlagast öllu að hafa hana með sér við hlið. Það spillir ekki heldur fyrir að hún bæði talar og skilur dönsku," segir Paulsen. Siri Seglem er 26 ára norsk skytta sem spilaði með Önnu þegar hún var í eitt tímabil hjá norska liðinu Levanger.

Paulsen segir Önnu koma til að hjálpa liðinu mikið og þá sérstaklega styrkja breiddina. „Hún er línumaður og helstu kostir hennar liggja í varnarleiknum þar sem hún vinnur vel saman með öðrum í liðinu og staðsetur sig mjög vel. Anna er líka hörkutól sem gefur ekki þumlung eftir," segir Jan Paulsen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×