Handbolti

Tímabilið búið hjá Arnóri

Arnór leikur ekki meira með FCK í vetur.
Arnór leikur ekki meira með FCK í vetur. Mynd/Birkir Baldvinsson

„Þetta er ansi mikið áfall. Þetta átti ekki að vera mikil aðgerð en þegar ég vakna er mér sagt að staðan hafi verið ansi slæm," sagði landsliðsmaðurinn Arnór Atlason við Vísi áðan en hann leikur ekki meira á þessari leiktíð.

Arnór lagðist undir hnífinn í gær og þegar búið var að opna á honum hnéð komu í ljós að hnéð var mun verr farið en menn héldu. Aðgerðin sem hann fór í var því nokkuð stór.

„Ég átti að fara í þessa aðgerð í júní en það var lán í óláni að ég skyldi meiðast og þurfa að fara í hana núna. Ef ég hefði bara farið í sumar hefði hnéð verið enn verra," sagði Arnór sem hefur þrátt fyrir meiðslin verið að leika vel fyrir félag sitt, FCK.

Akureyringurinn fór í aðgerð á hnénu í Danmörku í nóvember og var talið að hún hefði heppnast vel. Engu að síður var hnéð aftur illa farið og hann leikur því ekki meira í ár.

„Ég ligg bara með löppina upp í loft heima hjá mömmu núna enda má ég ekki stíga í fótinn næstu þrjár vikurnar. Ég er ekkert að hugsa um hvenær ég verð kominn aftur á ferðina heldur bara hvenær ég verði orðinn fullkomlega góður. Það er kominn tími á að ná almennilegri heilsu," sagði Arnór sem ætlar að hafa það náðugt heima hjá foreldrum sínum næstu vikuna áður en hann heldur aftur utan til Kaupmannahafnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×