Handbolti

Ólafur: Hélt að mér yrði refsað fyrir að gera ekkert fyrir Ísland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson. Mynd/Vilhelm
Ólafur Stefánsson tók við titlinum Íþróttamaður ársins í gær í fjórða sinn og gladdi gesti og sjónvarpsáhorfendur með hógværð sinni og hugsjón. Hann viðurkenndi að hafa ekki verið mikið að pæla í því að hann gæti orðið Íþróttamaður ársins annað árið í röð.

„Ég hélt að mér yrði kannski refsað fyrir að hafa ekkert gert á árinu fyrir Ísland þannig að ég var ekkert að hugsa um þetta," sagði Ólafur Stefánsson.

„Þetta var gott ár en kannski má segja að þetta hafi verið hálft gott ár þó svo að það sé búið að vera gaman hjá Löven líka," sagði Ólafur Stefánsson af hógværð og sinni vel þekktu gagnrýnu hugsun. Hann segir að sigurinn í Meistaradeildinni í maí standi upp úr.

„Stundin í maí var afrakstur átta til níu mánaða, svita, tára og allt það. Hún var mjög gleðileg og góð en jafnframt óvænt og erfið. Ég sé ekki eftir því að hafa skipt um lið og mér finnst frábært að vera kominn til Þýskalands að reyna eitthvað nýtt og kynnast nýjum hlutum," sagði

Ólafur sem segir þýsku deildina reyna á sig. „Það er meira um morgunæfingar sem er ekki skemmtilegt fyrir 36 ára skrokk. Maður venst því bara sem sýnir það að þú getur aðlagast öllu. Manskepnan er aðlögunarhæfasta veran á jörðinni og ég reyni að nýta mér það," segir heimspekingurinn.

„Auðvitað gæti maður hugsað; af hverju ekki að vinna fleiri titla á Spáni? en lífið var bara orðið þannig að það hefði bara verið endurtekning. Það hefði ekki verið þess virði að taka við þessum bikar á ári ef maður er að endurtaka sig," sagði Ólafur og hann segir að Löven-liðið hafi ekki spilað nógu vel í vetur.

Ólafur snýr aftur í íslenska landsliðið á EM í Austurríki eftir meira en ársfrí.

„Ég hef gert rétt með því að taka mér frí frá landsliðinu fyrst ég fékk þennan bikar og liðið komst á mótið. Það er því kannski enn þá meiri pressa á mér á mótinu fyrst ég gerði ekkert til þess að koma okkur þangað. Ég verð að reyna þá að hjálpa þar til," segir Ólafur en breidd liðsins sýndi sig í keppninni.

„Það komu margir góðir þættir út úr því að ég var ekki með í undankeppni EM og fyrst að við komumst þá er ég ekki með neitt samviskubit," sagði Ólafur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×