Innlent

Ísland er óviðbúið árásum tölvuþrjóta

DV.is lenti í tölvuárás.
DV.is lenti í tölvuárás.

Engar varnir gegn tölvuárásum sem gagn er að eru til staðar hér á landi, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið bent á þörf fyrir þær. Tölvuárásir gætu lamað samskipti í gegnum Netið, og jafnvel haft áhrif á hluta símkerfisins.

Bæði Póst- og fjarskiptastofnun og Varnarmálastofnun hafa unnið að því að undirbúa uppsetningu slíkra varna. Sá undirbúningur hefur nú að mestu stöðvast þar sem ekkert fé er lagt í varnirnar.

Mikil áhersla hefur verið lögð á varnir gegn tölvuárásum á hinum Norðurlöndunum. Íslandi var boðið að þróa varnir samhliða Danmörku. Það var þegið, en Ísland heltist úr lestinni þegar kom að því að fjárfesta í tækjum og ráða og þjálfa starfsmenn.

Víða í ná­grannalöndunum hafa verið settir upp viðbragðshópar sem hafa það hlutverk að bregðast við hættu á árásum. Póst- og fjarskiptastofnun hefur lagt til að slíkum hópi verði komið á fót hér á landi.

„Við teljum fulla ástæðu til að koma upp slíkum viðbragðshópi hérlendis, en það kostar fé sem liggur ekki á lausu," segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.

Hann segir varnir gegn tölvuárásum geta verið fljótar að borga sig, þar sem þær geti kostað stofnanir og fyrirtæki háar upphæðir. Hrafnkell segir veltuna hjá glæpamönnum sem noti Netið við iðju sína gríðarlega mikla, og þeir noti afar háþróaðan hugbúnað.

Tölvuárásir hafa valdið gríðarlegum truflunum bæði í Eistlandi og Georgíu.- bj /




Fleiri fréttir

Sjá meira


×