Innlent

Einum sleppt vegna kókaínmálsins

Karl á sextugsaldri er laus úr haldi lögreglu en maðurinn sat í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild á innflutningi kókaíns hingað til lands frá Spáni.

Sjö manns, sex karlar og ein kona, sitja enn í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar sama máls en það snýst um tvær tilraunir til innflutnings á kókaíni. Í öðru tilvikinu var afhendingu fíkniefnanna fylgt eftir, það er frá því að svokallað meint burðardýr kom því í hendur viðtakenda.

Rannsóknin miðar jafnframt að því að tengja málin við önnur sem upp hafa komið, bæði hérlendis og erlendis, þar sem Íslendingar hafa komið við sögu.

Vegna þessa hefur Europol haft aðkomu að rannsókninni.

Eins og fyrr segir er rannsóknin töluvert víðtæk en í tengslum við hana framkvæmdi lögreglan allmargar húsleitir. Í þeim var lagt hald á umtalsverða fjármuni sem og skartgripi.

Það eru lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum sem í sameiningu rannsaka málið en hafa við það notið aðstoðar embættis ríkislögreglustjóra og tollyfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×