Íslenski boltinn

Sigurður Ragnar: Þær liggja til baka og við þurfum að sækja hratt

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki sínu gegn Norður-Írum á laugardaginn.
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki sínu gegn Norður-Írum á laugardaginn. Fréttablaðið/Daníel
Ísland og Króatía mætast í undankeppni HM 2010 annað kvöld. Vinni Ísland ekki leikinn er HM-draumur þess úti. Króatía er í neðsta sæti riðilsins og landsliðsþjálfarinn segir það svipað að styrkleika og landslið Norður-Írlands sem Ísland vann örugglega á laugardaginn.

„Við þurfum að breyta byrjunarliðinu þar sem Ólína G. Viðarsdótti er í banni en annars ætlum við bara að byggja á nokkuð góðan leik á laugardaginn. Við þurfum að nýta færin betur og ég býst við að Króatía spili svipað og Norður-Írland, þær liggi vel til baka og reyni að sækja hratt."

Það reyndi Norður-Írland gegn Íslandi en komst ekki yfir miðju. „Við þurfum að spila hratt og nýta færin. Króatía er með tvo góða leikmenn sem við þurfum að hafa sérstakar gætur á og þær geta varist ágætlega. Frakkland vann þær 3-0 á sunnudaginn og átti þrettán skot á markið. En við eigum að vera með mun betra lið," segir Sigurður.

Króatía óskaði eftir því að færa leikinn sem átti að vera á miðvikudaginn og spilar því tvo leiki á þremur dögum. „Ég samþykkti það þar sem það er okkur í hag. Ég veit ekki af hverju þær vildu færa leikinn, ef til vill til að spara ferðakostnað," sagði landsliðsþjálfarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×