Jóhannes Karl Sigursteinsson gat ekki annað en hrósað stelpunum sínum í hástert eftir að Breiðablik komst áfram í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í dag.
Liðið gerði 3-3 jafntefli við Juvisy frá Frakklandi í dag. Blikar lentu í öðru sæti riðilsins og voru með bestan árangur allra liðanna sem lentu í öðru sæti og komust því áfram.
"Það var ótrúlegur karakter að koma til baka," sagði Jóhannes en Blikar lentu tvívegis undir í leiknum.
"Þetta var mjög erfitt í fyrri hálfleik. Þær settu á okkur mikla pressu og við fundum ekki flæðið í okkar leik. En þegar þær féllu frá okkur gáfu þær okkur tíma og þá gengum við á lagið," sagði Jóhannes.
"Fyrsta markið okkar kom eftir mikil varnarmistök þeirra og svo skora þær klaufalegt sjálfsmark. En við höfum ekki verið mjög heppin í sumar, kannski tókum við út okkar skerf af heppni í sumar í þessum leik," sagði þjálfarinn en franska liðið fékk fjölda dauðafæra til að skora fleiri mörk.
Dregið verður í 32-liða úrslit þann 19. ágúst.
Jóhannes: Tókum eflaust út okkar skerf af heppni í sumar í dag

Tengdar fréttir

Gott jafntefli Blika og liðið komst áfram í Meistaradeildinni
Breiðablik er komið áfram í 32-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir jafntefli gegn franska liðinu Juvisy á Kópavogsvelli. Lokatölur voru 3-3 en franska liðið náði efsta sæti riðilsins.