Óttast var í gær að flóðin í sunnanverðu Frakklandi hafi kostað meira en þrjátíu manns lífið. Vitað var um nítján dauðsföll síðdegis, en að auki var að minnsta kosti tólf manns saknað.
Verst urðu flóðin á frönsku Rivíerunni, þar sem allt að tveggja metra hátt brúnleitt vatn lá víða yfir fögrum smáþorpum sem ferðamenn hafa sótt stíft í.
Flóðin ollu miklum skemmdum, meðal annars á húsum, bifreiðum og gróðri.
Flóðin hófust á þriðjudagskvöld þegar skyndilegt úrhelli kom úr lofti, meiri úrkoma en áður hefur þekkst þarna á þessum árstíma. Þar sem mestu flóðin urðu, í Arcs skammt frá Draguignan, mældist úrkoman 40 sentimetrar, en það samsvarar meðalúrkomu sex mánaða samtals á þessum stað.
Nærri þrjú þúsund manna björgunarlið gekk til liðs við 650 manna lögreglusveitir svæðisins. Notast var við þyrlur til að bjarga fólki úr sjálfheldu aðfaranótt þriðjudags.
Síðdegis í gær voru 89 þúsund manns enn án rafmagns.- gb