Körfubolti

Hlynur Bærings: Bæði lið með stórt vopnabúr

Elvar Geir Magnússon skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson.

Eftir að Snæfell lagði Keflavík í undanúrslitum sagði Hlynur Bæringsson, leikmaður Snæfells, að hann vildi fá ÍR í úrslitaleiknum. Honum varð ekki að ósk sinni því Grindavík verður mótherjinn í Laugardalshöllinni í dag.

„Ég vildi bara fá liðið sem væri lélegra, þetta var bara óskhyggja. Ég bjóst alltaf við því samt að fá Grindavík," segir Hlynur.

„Það er mjög erfitt að spá fyrir um þennan leik. Þetta eru tvö mjög jöfn lið. Bæði lið hafa stórt vopnabúr, það er ekki bara einhver einn leikmaður sem er að skora. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta fer."

„Ég hef spilað tvo bikarúrslitaleiki og annar þeirra var nokkuð öruggt tap gegn Keflavík en svo lék ég gegn Fjölni. Þá var aldrei spurning hvort við myndum vinna. Það verður gaman að prófa svona jafna viðureign," segir Hlynur.

Er stemningin í leikmannahópnum öðruvísi í vikunni fyrir svona bikarúrslitaleik heldur en venjulega? „Það er meiri spenningur. Allir eru einbeittari. Þetta er aðallega tilhlökkun. Það er erfitt að bíða eftir þessu. Ég ætla bara rétt að vona að allir í Hólminum geri sér bæjarferð. Það er fátt skemmtilegra en að fara á svona leiki," segir Hlynur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×