Handbolti

Alexander og Anna Úrsúla handknattleiksfólk ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í leik með Íslandi á EM.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í leik með Íslandi á EM. Mynd/Ole Nielsen
Stjórn Handknattleikssambands Íslands hefur útnefnt Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur og Alexander Petersson Handknattleiksmann og Handknattleikskonu ársins 2010 en bæði átti þau flott ár bæði með sínum félagsliðum sem og með íslensku landsliðunum. Þetta kemur fram á heimasíðu HSÍ.

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir er 25 ára gömul, fædd 1. maí 1985. Anna er alinn upp í KR sem síðar varð Grótta KR og lék hún þar alla yngri flokkana, síðan lá leið hennar til Levanger í Noregi en síðastliðin 5 ár hefur hún leikið með Stjörnunni, Gróttu og liði Vals sem hún varð Íslandsmeistari með á síðasta keppnistímabili.

Hún leikur stórt hlutverk í kvennalandsliði Íslands sem komst í úrslit Evrópumeistaramótsins nú í Desember. Anna leikur stöðu línumans og er mikill keppnismaður sem skilar ávallt sínu og er öðrum handknattleikskonum glæsileg fyrirmynd. Þá hefur Anna leikið 62 landsleiki og skorað í þeim 145 mörk.
Alexander Petersson.Mynd/Diener

Alexander Petersson er 30 ára gamall, fæddur 2.júlí 1980. Alexander hóf að leika handknattleik í Lettlandi en kom til Íslands árið 1998 og gekk til liðs Gróttu KR.

Með Gróttu KR lék Alexander í sjö ár en þá fór hann út til Þýskalands og gekk til liðs við Grossvaldstadt en í framhaldi af því hefur Alexander leikið með Flensborg og nú í haust gekk hann til liðs Fuchse Berlin og hefur Alexander átt stóran þátt í velgengni liðsins.

Árið 2004 fékk Alexander Íslenskan ríkisborgararétt og var í kjölfarið valinn í Íslenska landsliðið og varð hann strax einn af "Strákunum okkar". Alexander er geysilega mikill íþróttamaður og hefur hann heillað íslensku þjóðina með sinni frammistöðu.

Alexander hefur verið einn af lykil leikmönnum Íslenska karlalandsliðsins og á stóran þátt í stórkostlegum árangri þess á undanförnum árum. Alexander hefur leikið 109 landsleiki og skorað í þeim 429 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×