Jakob Jóhann Sveinsson, bringusundsmaður úr Ægi, varð í 27. sæti í undanrásum í 50 metra bringusundi á Evrópumótinu í Búdapest í Ungverjalandi í morgun og hefur þar með lokið keppni á mótinu.
Jakob varð fimmti í sínum riðli á tímanum 28.46 sekúndum sem er besti tími hans eftir búningabannið. Íslandsmetið Jakobs Jóhanns í greininni er 28.03 sekúndur sem var sett á HM í Róm 2009.
Jakob náði bestum árangri í 200 metra bringusundinu á mótinu þar sem hann hafnaði í 14. sæti en endaði síðan í 18. sæti í 100 metra bringusundi.
Jakob náði ekki að slá Íslandsmet á mótinu en hann náði sínum besta tíma eftir búningabann í öllum greinunum þremur.

