Fótbolti

Guardiola hefur ekki rætt við önnur félög

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Framtíðin er í óvissu hjá Guardiola.
Framtíðin er í óvissu hjá Guardiola.

Orðrómurinn um að Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, sé á leið til Chelsea næsta sumar neitar að deyja og nú hefur umboðsmaður þjálfarans ákveðið að skerast í leikinn.

Samningur Guardiola rennur út næsta sumar og hermt er að Chelsea, Inter og jafnvel Man. Utd hafi áhuga á honum. Umbi Guardiola segist trúa því að Guardiola verði áfram hjá Börsungum.

"Eins og staðan er núna eru engar viðræður í gangi við önnur félög. Ég hef ekki rætt við Inter en hef fengið fyrirspurnir frá öðrum umboðsmönnum. Eins og staðan er núna erum við ekki að hugsa um að fara frá Barcelona," sagði umbinn sem heitir hinu þjála nafni Jose Maria Orobitg.

"Samningur Guardiola rennur út næsta sumar og það er of snemmt að byrja að ræða um nýjan samning. Pep hefur alltaf viljað semja aðeins til eins árs í einu. Svo veit maður aldrei í fótbolta. Chelsea og Man. Utd? Nei, ég hef ekkert heyrt frá þeim. Ég hef þá trú að Pep verði áfram á bekknum hjá Barcelona næsta vetur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×