Íslenski boltinn

Bjarni: Við ætlum okkur áfram

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Fréttablaðið/Stefán
KR tekur á móti norður-írska liðinu Glentoran á KR-velli í kvöld en um er að ræða fyrri leik liðanna í 1. umferð undankeppni Evrópudeildar UEFA.

Glentoran varð í þriðja sæti í norður-írsku deildinni síðasta vetur en deildarkeppninni þar lauk 1. maí síðastliðinn og hefst ekki aftur fyrr en 7. ágúst. Gestirnir frá Norður-Írlandi ættu því ekki að vera í jafn góðu formi og KR-liðið. Liðið hefur aðeins leikið einn æfingaleik fyrir Íslandsferðina en þá tapaði Glentoran fyrir velsku meisturunum í TNS, 2-0.

„Við vitum lítið um liðið en vitum þó að þetta er klassískt breskt félag. Spilar 4-4-2 sem beitir löngum boltum upp í hornin. Þaðan á boltinn svo að koma fyrir markið," segir Bjarni Guðjónsson, fyrirliði KR, en hann segir ekkert annað en sigur í kvöld koma til greina.

„Við ætlum að komast áfram í þessari keppni. Ég myndi telja að þessi lið séu frekar áþekk og möguleikar okkar eru góðir. Stefnan er að vinna þennan leik og halda svo markinu hreinu á útivelli. Það er ágætis leið í þessari keppni. Það þýðir samt að við verðum að sækja á heimavelli."

KR stóð sig afar vel í Evrópukeppninni í fyrra. Sló út gríska liðið Larissa og var ekki fjarri því að slá svissneska liðið Basel síðan út. Eftir það komst liðið á mikla siglingu í deildinni hér heima.

„Þetta var mjög skemmtilegt í fyrra og þátttakan í keppninni kom okkur í gang. Menn fengu sjálfstraust við að sjá að þeir ættu í fullu tré við atvinnumannalið. Vissulega fórum við í gang í fyrra eftir Evrópukeppnina en við hugsum ekki of mikið um það. Þó það sé klisjukennt þá hugsum við bara um einn leik í einu," segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×