Fótbolti

Mourinho: Vitnaði í Tony Soprano á blaðamannafundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid.
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid. Mynd/AP
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, ætlar að passa upp á það að leikmenn Real endurtaki ekki leikinn frá því fyrir ári síðan þegar liðið datt óvænt út úr spænska Konungsbikarnum á móti smáliðinu Alcorcon.

Real Madrid tapaði fyrri leiknum 0-4 á móti Alcorcon og vann síðan aðeins 1-0 á heimavelli og féll því úr leik í 32 liða úrslitum. Þetta var eitt af mörgum stórum áföllum liðsins á síðustu leiktíð.

Real Madrid hefur keppni í spænska Konungsbikarnum á morgun og Mourinho vitnaði í Tony Soprano úr bandaríska sjónvarpsþættinum The Sopranos á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Ef það sama gerist í ár og í fyrra á móti Alcorcon þá mun ég strika þá leikmenn sem spila út af sakramentinu og þeir verða sem dauðir í mínum augum," sagði Jose Mourinho.

„Karim Benzema verður í byrjunarliðinu og Cristiano Ronaldo mun einnig spila. Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir mig," sagði Mourinho. Mesut Ozil, Xabi Alonso og Ricardo Carvalho fá hinsvegar frí.

Real Madrid mætir Real Murcia í 32 liða úrslitunum á morgun en sama dag spilar Barcelona við 3. deildarlið Ceuta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×