Fótbolti

Forseti Inter: Ætlar að reyna að kaupa Messi árið 2013

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/AP
Massimo Moratti, forseti Inter, er alltaf skemmtilega hreinskilinn í viðtölum og ítalskir fjölmiðlamenn eru duglegir að heyra í þessum 65 ára knattspyrnuáhugamanni sem hefur gert frábæra hluti með Inter síðan að hann settist í forsetastólinn hjá Internazionale Milano fyrir fimmtán árum.

Moratti talaði nú síðast um framtíðarherferð félagsins til að reyna að lokka Lionel Messi frá Barcelona. Moratti ætlar sér að reyna að kaupa besta knattspyrnumann í heimi eftir þrjú ár. Moratti ætlar að nota landa Messi, Javier Zanetti, til þess að sannfæra Messi um að koma yfir til Inter en Zanetti verður þá búinn að leggja skónna á hilluna og farinn að vinna fyrir Inter.

Messi er með samning við Barcelona til ársins 2016 en hann hefur verið í herbúðum Katalóníufélagsins undanfarinn áratug eða síðan að hann kom þangað þrettán ára gamall árið 2000.

„Messi? Það eru fjölmiðlamennirnir sem eru alltaf að spyrja mig út í hann. Það eru öll félög í heimi sem myndu hafa áhuga á að fá Messi en það verður erfitt að kaupa hann frá Barcelona. Hver veit samt hvernig það verður í framtíðinni," sagði Moratti í viðtalið við Sky Italia.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×