Það er hörkuþungavigtarbardagi í Bretlandi í kvöld þegar hinn kjaftfori David Haye mætir Audley Harrison í hringnum. Haye hefur verið yfirlýsingaglaður eins og venjulega fyrir bardagann.
Nú síðast lét hann hafa eftir að sér að hann muni yfirgefa England ef hann tapar.
"Ég yrði að flýja land. Ég gæti ekki búið í þessu landi ef ég tapa fyrir Harrison. Ég gæti ekki látið sjá mig á almannafæri. Það yrði hlegið að mér út um allt," sagði Haye.
Bardaginn í kvöld er sérstakur fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta skipti síðan 1993 sem tveir Bretar berjast um heimsmeistaratitil í þungavigt. Þá mættust þeir Lennox Lewis og Frank Bruno.
Haye er talinn líklegri í kvöld þó svo hann sé talsvert léttari en Harrison.