Íslenski boltinn

Keflvíkingar á EM í Futsal í dag - Vitum ekkert hvað við erum að fara út í

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Fréttablaðið/Daníel
„Við höfum ekkert æft enda verið að einbeita okkur að Pepsi-deildinni og við vitum ekkert hvað við erum að fara út í," segir Guðmundur Steinarsson, Keflvíkingur.

Hann er einn af fjórtán liðsmönnum sem taka þátt í Evrópumótinu í Futsal sem hefst á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag. Þar er keppt í innanhússknattspyrnu, fimm eru í liði og ótakmarkaðar skiptingar eru leyfðar. Þá er boltinn minni og þyngri en venjulegur fótbolti.

„Þetta snýst mikið um leikskilning, tækni og menn þurfa að vera klókir. Snerpa hjálpar líka. Þetta er ekkert brjálæðislega frábrugðið því að spila venjulega knattspyrnu. Við erum meðal annars með gamla jálkinn Zoran Ljubicic í liðinu, hann kann þetta alveg. Þetta snýst um það."

Hann segir að liðið, sem varð Íslandsmeistari árið 2010, ætli að æfa tvisvar fyrir fyrsta leik í dag og það hefur þegar aflað sér upplýsinga um andstæðingana.

Tvö íslensk lið, Víðir úr Garði og Hvöt frá Blönduósi hafa tekið þátt í EM í Futsal en ekki unnið leik. „Mig langar ógeðslega að vinna einn leik, að ná Evrópusigri," segir Guðmundur en andstæðingar Keflvíkinga eru mjög sterkir. Þeir koma frá Hollandi, Frakklandi og Svíþjóð.

„Það þarf aðeins að koma Futsal betur á kortið. Ef menn setja aðeins meiri metnað í þetta getur þetta boðið upp á helling. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki með til að byrja með en eftir að ég byrjaði fannst mér þetta mjög gaman. Ef við náum einhverjum árangri gæti þetta líka stækkað aðeins," sagði Guðmundur.

Fyrsti leikur liðsins er klukkan 17.30 í dag, hálftíma áður en bikarúrslitaleikur KR og FH fer fram. „Sá leikur var færður, hann átti að vera klukkan tvö. Það eru auðvitað ekki komnir fastir leikdagar eða neitt slíkt hjá KSÍ með Futsal. En ég hvet alla til að mæta í hlýjuna á Ásvöllum í stað þess að húka í kuldanum á Laugardalsvelli," sagði Guðmundur léttur.

Keflavík leikur klukkan 17.30 í dag, á morgun og á þriðjudaginn. Aðeins 500 krónur kostar inn á hvern leik eða 1.000 á alla þrjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×