Stjórn Saga fjárfestingabanka tók ákvörðun um það á fundi í gær að Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri bankans, yrði ekki settur í leyfi frá störfum vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á málefnum Glitnis.
Eitt málanna sem sérstakur saksóknari rannsakar tengist bankanum. Um er að ræða kaup fagfjárfestasjóðs GLB FX, sem var í vörslu Glitnis, á skuldabréfi af Saga Capital, nú Saga Fjárfestingarbanki, en bréfið var útgefið af Stím ehf.
Þorvaldur Lúðvík var yfirheyrður af sérstökum saksóknara í vikunni og hefur réttarstöðu sakbornings í málinu.
Halldór Jóhannsson, stjórnarformaður bankans, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu. Halldór sagði að á þessu stigi málsins og í ljósi heildarhagsmuna bankans, telji stjórnin ekki ástæðu til þess að Þorvaldur víki úr starfi.