Íslenski boltinn

Kolbeinn: Íslendingar eiga að vera stoltir af þessum árangri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar
Kolbeinn í fyrri leiknum.
Kolbeinn í fyrri leiknum.

Kolbeinn Sigþórsson þurfti að fara meiddur af velli í hálfleik í leik Íslands og Skotlands í kvöld. Hann var tæpur fyrir leikinn en ákveðið var að láta reyna á meiðslin.

„Ég hef fundið fyrir eymslum aftan í lærinu og svo þurfti ég bara að biðja um skiptingu. Alfreð [Finnbogason] kom þá inn og hann stóð sig vel.“

Staðan var þá markalaus en svo fór að Ísland vann 2-1 sigur og tryggði sér þar með farseðilinn til Danmerkur næsta sumar þar sem úrslitakeppni EM U-21 landsliða fer fram.

„Þetta var mikið spennufall í endann. Við héldum að þetta væri nánast tryggt þegar við skoruðum fyrra markið en þá skoruðu þeir þetta ótrúlega mark.“

„En Gylfi kláraði þetta frábærlega fyrir okkur. Þegar hann fær boltann er nánast öruggt að hann skorar. Þetta er í raun alveg fáránlegt.“

„Ég er mjög stoltur og ég held að Íslendingar eigi að vera stoltir af þessum árangri. Tilfinningin er æðisleg.“

Kolbeinn var í U-17 liði Íslands sem spilaði í úrslitakeppni EM í þeim aldursflokki fyrir fáeinum árum. Nokkrir úr því liði eru í U-21 liðinu nú.

„Ætli mótið í Danmörku sé þó ekki aðeins stærra. En þetta er frábært fyrir íslenska knattspyrnu - það er greinilegt að hún er á uppleið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×