"Þetta er ekki afsökun heldur afneitun," segir Vilhjálmur Bjarnason, lektor við Háskóla Íslands um bréf Björgólfs Thor Björgólfssonar sem birtist í Fréttablaðinu í morgun. Í bréfinu segist Björgólfur biðjast afsökunar.
"Með því að biðjast fyrirgefningar felst breyting í viðhorfi," segir Vilhjálmur. "En það er ekki að finna hjá Björgólfi. Hans afsökun er réttlæting."
Í grein sinni segir Björgólfur Thor meðal annars: "Hver Íslendingur ber ábyrgð á eigin fjármálum og situr uppi með þær ákvarðanir sem hann tók. Ég er þar engin undantekning."
Vilhjálmur bendir á að fjöldi Íslendinga situr í skuldasúpu af völdum aðgerða manna eins og Björgólfs.
"Eina raunverulega afsökunin væri sú að hann skilaði þjóðinni þeim peningum sem hann hafði af henni. Þetta bréf Björgólfs, sem ég er viss um að hann hefur ekki skrifað sjálfur heldur Ásgeir Friðgeirsson, aðstoðarmaður hans, er ekkert annað en aum réttlæting."