„Svo kemur það fram í einum póstinum að hann hóti að verða stjórnarformaður fái hann ekki lánið og verði þar af leiðandi einhversskonar yfirbankastjóri," sagði lektorinn Vilhjálmur Bjarnason og hluthafi Glitnis í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun.
Vilhjálmur vitnar þarna í tölvupóstsamskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við Lárus Welding sem þá var forstjóri Glitnis en Stöð 2 greindi frá stefnuninni í gærkvöldi.
Þar kom fram að Lárusi, Jóni Ásgeiri og Pálma Haraldssonar auk þriggja starfsmanna bankans, hefur verið stefnt af skilanefnd Glitnis sem krefst sex milljarða af hópnum vegna sérkennilegrar lánveitingar.
Vilhjálmur hefur látið til sína taka varðandi málefni Glitnis og meðal annars stefnt stjórnarmönnum vegna gjörninga sem hann taldi skaðlega fyrir hluthafa. Hann segir samskiptin sýna og sanna það sem hann hefur áður haldið fram; kjörin stjórn bankans hafði engin völd.
„Ég hef nú haldið því fram í eitt og hálft ár að bankarnir hafi verið rændir innan frá af eigendum bankans," sagði Vilhjálmur og bendir á að menn hafi stundað það að láta búa til fyrir sig möt og nefnir Capacent í því samhengi. Hann segir þessa möt hafa verið út í bláinn auk þess sem menn virðast hafa búi til lánareglur og eftirlitsaðilar tekið við þeim gagnrýnislaust. Á sama tíma hafi stjórnin setið aðgerðarlaus hjá auk starfsmanna bankans.
Aðspurður um það hvað honum fyndist um starfsmennina sem fylgdu skipunum yfirboðara sinna sagði Vilhjálmur að þeir væru eingöngu sekir um mannlega hegðun, en einn þeirra spurði í tölvupósti hvort það væri ekki einfaldara að lána Pálma Haraldssyni tvo milljarða sem hann gæti svo falið á Cayman eyjunum áður en hann yrði gjaldþrota í staðinn fyrir að fara í svo flóknar æfingar sem endaði með sex milljarða krón láni.
Líkti Vilhjálmur fylgispekt starfsmanna við íbúa þriðja ríkisins.
Jón Ásgeir, Pálmi Haraldsson og Lárus Welding hafa neitað því opinberlega að eitthvað óeðlilegt hafi verið í gangi varðandi lánveitinguna.