Körfubolti

Fannar: Sætasti bikarmeistaratitillinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fannar Ólafsson varð í dag bikarmeistari í þriðja sinn á ferlinum en í fyrsta sinn með KR. KR vann í dag sigur á Grindavík í úrslitaleiknum, 94-72.

„Ég held að þetta sé þriðji titillinn hjá mér en alveg örugglega sá sætasti. Að koma þessu heim í KR eftir 20 ára bið er svakalegt,“ sagði Fannar, fyrirliði KR.

„Menn hafa beðið lengi eftir þessum titli og við vorum í dag líka að leiðrétta ákveðin mistök sem við gerðum árið 2009,“ bætti hann við en þá tapaði sterkt lið KR óvænt fyrir Stjörnunni í úrslitum bikarkeppninnar. „Við vorum ákveðnir í að falla ekki í sömu gryfju og þá.“

Aðeins munaði tveimur stigum á liðunum í hálfleik en KR-ingar gerðu út um leikinn snemma í þeim síðari.

„Það fór ekki um okkur eftir fyrri hálfleikinn því þetta var allt eftir okkar leikplani. Við vissum að þeir kæmu grimmir til leiks enda með hörkulið. En við vissum líka að þeir gætu ekki hlaupið á eftir okkur í 40 mínútur eins og staðan er í dag.“

„Við ætluðum að keyra vel á þá í seinni hálfleik og það var það sem gerðist.“

„Þetta er það sem koma skal. Það eru alltaf væntingar í KR og ætlast til þess að við vinnum titla á hverju ári. Við gáfum út strax í haust að við ætluðum að verða Íslands- og bikarmeistarar og er þetta fyrsta skrefið í því.“

„Þetta er ekki sagt í einhverjum hroka heldur viljum við ekki fela okkar markmið. Það er nú annarra að taka af okkur titilinn en við teljum okkur vera með það gott lið að við getum staðist öllum liðum snúning.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×