Íslenski boltinn

Stelpurnar okkar 99 sætum ofar en strákarnir á heimslistanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir
Margrét Lára Viðarsdóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir Mynd/Stefán
Íslenska kvennalandsliðið er í 16. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA sem gefinn var út í morgun og hefur aldrei verið hærra á listanum. Stelpurnar okkar fara þó aðeins upp um eitt sæti þrátt fyrir frábæran árangur liðsins í Algarve-bikarnum þar sem liðið náði öðru sætinu.

Íslenska liðið deilir sextánda sætinu með Suður-Kóreu en tvö af liðunum sem Ísland vann í Algarve-bikarnum, Svíþjóð (-1 í 5.sæti) og Kína (-2 í 13. sæti) duttu niður á listanum að þessu sinni. Danir sem Ísland vann einnig hækkuðu sig um eitt sæti og upp í það þrettánda. Bandaríkin eru sem fyrr í efsta sæti styrkleikalistans en Ísland tapaði 2-4 í úrslitaleiknum á móti bandaríska liðinu.

Íslenska kvennalandsliðið er nú 99 sætum ofar á heimslistanum en karlalandsliðið sem situr eins og er í 115. sætinu og hefur aðeins einu sinni verið neðar á listanum.

Af mótherjum Íslands í undankeppni fyrir EM 2013 er það að frétta að Noregur er í 9. sæti og fellur um tvö sæti. Ungverjaland er í 30. sæti og fer upp um eitt sæti á meðan Belgía er í 35. sæti og stendur í stað. Þá eru Búlgarir í 48. sæti og fara upp um eitt sæti eins og Norður Írar sem sitja nú í 63. sæti styrkleikalista FIFA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×