Nú er undanrásum laugardags á ÍM í 50 metra laug í sundi lokið og þennan morguninn féll eitt íslandsmet, eitt drengjamet auk þess sem tvær sundkonur syntu undir HM lágmarki.
Arnór Stefánsson hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar setti nýtt drengjamet í 400m skriðsundi og synti á 4.29.81. Þetta er töluverð bæting í greininni því gamla metið var 04:35.42 sem Einar Þór Ívarsson í ÍRB átti.
Ragnheiður Ragnarsdóttir úr KR synti 50m skriðstund í undarásum á tímanum 25.86 sem er undir HM lágmarkinu sem er 26.06. Þetta er þriðja HM lágmarkið sem Ragnheiður nær á mótinu nú um helgina.
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr Sundfélagi Hafnarfjarðar bætti sitt eigið Íslandsmet í 50m baksundi frá því í janúar sem var 29.74. Hún synti rétt í þessu á 29.56. Hún er undir lágmörkum á heimsmeistaramótið í Shanghai í sumar.
Sundsamband Íslands hvetur alla áhugasama að fjölmenna í Laugardalslaugina í dag kl 16:30 en þá fara fram úrslit í greinum morgunsins.

