Handbolti

Björgvin Páll: Líst ágætlega á riðilinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björgvin Páll átti stórleik í Laugardalshöll gegn Austurríki á sunnudaginn var
Björgvin Páll átti stórleik í Laugardalshöll gegn Austurríki á sunnudaginn var Mynd/Vísir
Björgvini Páli Gústavssyni markverði íslenska landsliðsins í handknattleik líst ágætlega á riðil Íslendinga á Evrópumótinu í handknattleik.

Björgvin Páll var upptekinn við verklega kennslu á meðan drátturinn fór fram í Serbíu. Hann hafði því ekki haft neinn tíma til þess að velta honum fyrir sér þegar fréttamaður sló á þráðinn til hans. Honum leist þó ágætlega á riðlinn.

„Þetta er svolítið eins og síðast (á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð í janúar). Við spiluðum hörkuleiki við Noreg og Króatíu á síðasta móti. Unnum Norðmennina auðvitað og stóðum vel í Króötum. Svo eru Slóvenar kannski svolítið óskrifað blað, “ sagði Björgvin Páll

Björgvin segir ekkert ákjósanlegt að fá Frakkana í milliriðil komist íslenska landsliðið þangað. Frakkar hafa verið í sérflokki undanfarin ár og virka ósigrandi.

„Það má auðvitað segja það. Þeir eru í sérflokki. Hjá liðum númer tvö til tólf í heiminum geta allir unnið alla. En það kemur auðvitað að því að Frakkarnir misstíga sig og þá er bara spurning gegn hverjum það verður. Þeir eru ekki ósigrandi,„“ sagði Björgvin Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×