Handbolti

Óli einu marki frá 1500 - Alex vantar tvö mörk í 500

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson og Alexander Petersson.
Ólafur Stefánsson og Alexander Petersson. Mynd/Valli
Ólafur Stefánsson og Alexander Petersson eiga báðir góða möguleika á að skora tímamótamörk í leiknum mikilvæga á móti Austurríkismönnum í Laugardalshöllinni á morgun. Sigur tryggir íslenska liðinu sæti á EM í Serbíu en austurríska liðinu nægir jafntefli í leiknum sem hefst klukkan 16.30.

Ólafur er langmarkahæsti leikmaður Íslands frá upphafi og vantar nú aðeins eitt mark til þess að skora sitt 1500. mark fyrir A-landsliðið. Ólafur hefur skorað 1499 mörk í 314 A-landsleikjum eða 4,8 mörk að meðaltali í leik. Hann hefur skorað 3,6 mörk að meðaltali í 14 landsleikjum sínum á þessu ári.

Alexander Petersson vantar aðeins tvö mörk til þess að skora sitt 500. mark fyrir íslenska A-landsliðið en fjórir aðrir leikmenn liðsins í dag hafa þegar náð að brjóta 500. marka múrinn. Alexander hefur skorað 498 mörk í 123 landsleikjum eða 4,1 að meðaltali í leik en hann hefur skorað 5,1 mark að meðaltali í 14 landsleikjum sínum á þessu ári.

Ólafur Stefánsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Snorri Steinn Guðjónsson og Róbert Gunnarsson hafa allir náð að brjóta fimm hundruð marka múrinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×