Körfubolti

Jón Arnór og Yao Ming mætast í haust

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Körfuknattleikssamband Íslands tilkynnti í dag að sambandið hefði þegið boð Kínverja um tvo æfingaleiki í haust. Leikirnir fara fram í Kína 9. og 11. september en gestgjafarnir greiða allan kostnað við ferð íslenska liðsins.

Hannes S. Jónsson formaður KKÍ segist mjög ánægður með boð Kínverjanna.

„Við erum mjög ánægðir að vera loksins komnir aftur af stað með A-landslið karla. Norðurlandamótið er fyrsta skrefið en svo kom óvænt tilboð frá Kína þar sem kínverska körfuknattleikssambandið bauð okkur að spila tvo æfingaleiki við landslið þeirra. Liðið verður í fullum undirbúningi fyrir Asíuleikana sem fara fram um miðjan september."

Kína er fjölmennasta þjóð heims og Hannes segir körfuknattleik vinsælustu íþróttina þar í landi. Leikirnir verða þeir síðustu sem liðið spilar fyrir Asíuleikana og Hannes segir að íslenskum körfuknattleik sé mikill heiður sýndur með boðinu.

„Við fengum samskonar boð árið 2005 og spiluðum tvo leiki. Á sex árum höfum við því fengið tvö boð frá Kínverjum. Þetta sýnir að íslenskur körfubolti nýtur mikillar virðingar."

Hannes segir lykilatriði að Kínverjarnir greiða allan kostnað við ferðalag íslenska liðsins.

„Við þurfum ekki að leggja út neinn kostnað. Það skiptir öllu máli fyrir okkur. Kínverjarnir borga allan pakkann frá því við leggjum af stað úr Reykjavík þar til við lendum aftur í Keflavík."

Hannes reiknar með því að flestir ef ekki allir leikmenn landsliðsins geti tekið þátt í verkefninu.

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×