Handbolti

Ásbjörn Friðriksson til liðs við Allingsas HK

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásbjörn er lunkinn leikstjórnandi
Ásbjörn er lunkinn leikstjórnandi Mynd/Vilhelm
Handknattleikskappinn Ásbjörn Friðriksson úr FH hefur skrifað undir samning við sænska félagið Allingsas HK. Félagið leikur í efstu deild í Svíþjóð og er samningur Ásbjörns til tveggja ára með möguleika á eins árs framlengingu.

Þetta kemur fram á heimasíðu sænska félagsins í kvöld. Þar er Ásbirni lýst sem skapandi leikmanni og öflugum í vörn sem sókn. Robert Wedberg þjálfari liðsins er hæstánægður með komu Ásbjörns.

„Með komu Ásbjörns eykst samkeppnin í liðinu til muna. En fyrst og fremst fáum við leikmann með mikla hæfileika sem er duglegur að leita samherja sína uppi," sagði Wedberg á heimasíðu félagsins.

Formaður félagsins segir komu Ásbjörns sýna hversu gott orðspor félagið hefur.

„Við vorum í mikilli samkeppni við önnur lið á Norðurlöndunum. Það er frábært fyrir félagið að hafa náð að klófesta Ásbjörn og sönnun þess hve gott orðspor félagsins er utan Svíþjóðar," sagði formaðurinn Lennart Andersberg.

Félagaskipti Ásbjörns er enn eitt blóðfallið fyrir Íslandsmeistaralið FH. Ólafur Guðmundsson spilar í Danmörku á næstu leiktíð og Sigurgeir Árni Ægisson er á leið til Noregs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×