Íslenski boltinn

Bjarni: Stóð eins og stafur í bók

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarni Guðjónsson fyrirliði KR vaknaði í nótt og honum var heitt. Hann hafði dreymt að KR hefði dregist gegn BÍ/Bolungarvík í bikarnum og leikið yrði fyrir vestan. Nú er draumurinn orðinn að staðreynd en liðin mætast á Torfnesvelli þann 28. júlí.

„Já þetta er að ég held í fyrsta skipti sem BÍ/Bolungarvík fer svona langt í bikarnum og svo er þetta í fyrsta skipti sem við feðgarnir mætumst," sagði Bjarni.

Guðjón Þórðarson sagði við dráttinn að þetta hefði farið nákvmælega eins og Bjarna hafði dreymt.

„Ég er nú ekki bergdreyminn og nánast aldrei dreymt nokkurn skapaðan hlut sem vit var í. Í nótt vaknaði ég, var nokkuð heitt og áttaði mig á því, í draumnum, að við værum að fara vestur. Ég var að vona að þetta væri vitlaust og þeir væru á leiðinni í Vesturbæinn en þetta stóð eins og stafur í bók," sagði Bjarni.

Bjarni vill ekkert gefa upp með hverjum stórfjölskyldan muni halda í leiknum.

„Ég held hún verði bara sátt eftir leikinn sama hvernig fer. Annar hvor okkar verður kominn í úrslitaleikinn en aðalmálið er að leikurinn verði skemmtilegur og svo væri gaman ef það væri hægt að fá fullt af fólki á völlinn," sagði Bjarni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×