Íslenski boltinn

Guðjón: Líklega eins erfitt og það getur orðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vestfirðingar taka á móti KR-ingum á heimavelli 28. júlí. Guðjón sá sjálfur um að draga mótherjana upp úr hattinum. Guðjón Þórðarson þjálfari BÍ/Bolungarvíkur var nokkuð sáttur við dráttinn og lýsti honum að nokkru leyti sem draumadrætti.

Guðjón Þórðarson þjálfari BÍ/Bolungarvíkur var nokkuð sáttur við dráttinn í bikarnum í dag en hans menn taka á móti KR. Guðjón sá sjálfur um að draga mótherjana upp úr hattinum og sagði að nokkru leyti um draumadrátt að ræða.

„Að mörgu leyti var þetta það. Það er margt skemmtilegt við hann. Ég á tvo bikartitla við KR og svo er sonur minn Bjarni fyrirliði KR,“ sagði Guðjón sem er greinilega spenntur fyrir leiknum.

Allt gengur KR-ingum í hag þessa dagana og flestir á þeirri skoðun að þar fer sterkasta félagslið landsins um þessar mundir.

„Verkefnið er erfitt. KR er líklegast með besta liðið í deildinni í dag. Það gerir verkefnið ennþá skemmtilegra og meiri tilhlökkun að takast á við það. En þetta er líklega eins erfitt og það getur orðið á þessu ári,“ sagði Guðjón.

Guðjón hefur marga fjöruna sopið og segir sitt lið eiga möguleika að komast í úrslitaleikinn.

„Það er alltaf möguleiki. Það er fegurðin við fótboltann. Það er alltaf möguleiki. Maður hefur séð skrýtin úrslit.“  










Fleiri fréttir

Sjá meira


×