Topplið Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna hefur fengið góðan liðstyrk fyrir seinni umferðina því liðið hefur endurheimt tvo fyrrum liðsmenn sína, Hörpu Þorsteinsdóttur frá Breiðabliki og Eddu Maríu Birgisdóttur frá ÍBV. Þetta kemur fram á vefsíðunni fótbolti.net.
Harpa Þorsteinsdóttir hefur spilað með Breiðabliki undanfarin þrjú sumur en hún er að koma úr barnseignarfríi. Harpa lék 84 leiki í efstu deild með Stjörnunni á sínum tíma en hún hefur verið í kringum A-landslið kvenna undanfarin ár. Harpa var meðal annars markahæsti leikmaður Breiðabliks í Evrópukeppninni á síðasta tímabili.
Edda María Birgisdóttir hefur spilað með ÍBV-liðinu í fyrrasumar og í sumar en hefur ákveðið að snú aftur heim í Garðabæinn. Edda María byrjaði síðasta tímabil með Stjörnunni en fór síðan til ÍBV á miðju tímabili og hjálpaði Eyjastúlkum að vinna sér sæti í Pepsi-deildinni. Edda María hefur hinsvegar fengið fá tækifæri með spútnikliði ÍBV á þessu sumri.
