Körfubolti

Níu stiga sigur á Dönum - Logi með 24 stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson.
Íslenska körfuboltalandsliðið fagnaði sínum fyrsta sigri á NM og sínum fyrsta sigri undir stjórn Peter Öqvist þegar liðið vann níu stiga sigur á Dönum, 85-76, í kvöld á Norðurlandamótinu í Sundsvall.

Logi Gunnarsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 24 stig, Jakob Örn Sigurðarson skoraði 14 stig og Helgi Már Magnússon var með 13 stig. Hlynur Bæringsson var með 9 stig og 9 fráköst.

Íslenska liðið byrjaði leikinn mjög vel og komst í 8-0 eftir tvær og hálfa mínútu en Danir voru fljótir að jafna leikinn í 10-10. Íslenska liðið var með frumkvæðið lengstum en þurfti þriggja stiga körfu frá Hauki Helga Pálssyni til að vera 21-19 eftir fyrsta leikhlutann. Jakob Örn Sigurðarson skoraði átta stiga í fyrsta leikhlutanum.

Íslenska liðið var alltaf skrefinu á undan í öðrum leikhlutanum og var síðan sjö stigum yfir í hálfleik, 39-32, eftir að hafa skoraði fimm síðustu stig hálfleiksins. Jakob var kominn með tólf stig í hálfleik, Logi Gunnarsson skoraði 8 stig í fyrri hálfleik og Haukur Helgi Pálsson var með 6 stig.

Íslenska liðið hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik, skoraði 10 af fyrstu 12 stigum seinni hálfleiksins og komst mest fimmtán stigum yfir, 49-34. Danir náðu aðeins að laga stöðuna í framhaldinu en íslenska liðið var níu stigum yfir, 61-52, fyrir lokaleikhlutann.

Danir minnkuðu muninn í sex stig., 63-57, í upphafi fjórða leikhluta en Peter Öqvist tók þá leikhlé og íslenska liðið skoraði næstu sex stig og komst tólf stigum yfir, 69-57. Danir ætluðu ekki að gefast upp og Peter tók annað leikhlé eftir sjö dönsk stig í röð en munurinn var þá aðeins fimm stig, 69-64.

Íslenska landsliðið var sterkara á lokakaflanum og landaði að lokum níu stiga sigri. Logi Gunnarsson skoraði 11 af 24 stigum sínum í fjórða leikhlutanum og var langstigahæstur í íslenska liðinu.

Ísland-Danmörk 85-76 (39-32)

Stig Íslands: Logi Gunnarsson 24, Jakob Örn Sigurðarson 14, Helgi Már Magnússon 13, Hlynur Bæringsson 9 (9 fráköst), Pavel Ermolinskij 7 (7 fráköst, 4 stoðsendingar), Haukur Helgi Pálsson 7 (4 fráköst, 4 stoðsendingar), Hörður Axel Vilhjálmsson 6, Finnur Atli Magnússon 5.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×