Körfubolti

Jón Arnór spilar ekki meira á NM í Svíþjóð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Valli
Jón Arnór Stefánsson getur ekki spilað meira með íslenska körfuboltalandsliðinu á Norðurlandamótinu í Sundsvall í Svíþjóð vegna axlarmeiðslanna sem hann varð fyrir eftir aðeins nokkrar mínútur í fyrsta leiknum á móti Svíþjóð.

Meiðslin eru samt ekki alvarleg og hann ætti að vera kominn á fullt eftir sjö til tíu daga. Þetta kemur fram í pistli frá Friðriki Ingi Rúnarssyni, framkvæmdastjóra KKÍ, inn á KKÍ-síðunni.

„Vissulega hafði það einhver áhrif á hópinn þegar Jón Arnór meiddist þar sem í fyrstu virtist að um alvarleg meiðsli gæti verið að ræða. Það er auðvitað sárt að loksins þegar landsliðið kemur saman og allir okkar bestu leikmenn með að lykilmaður eins og Jón Arnór detti út á fyrstu andartökum í fyrsta leik mótsins. Svona er lífið, það er ekki alltaf á vísan að róa og það er ekkert annað í stöðunni en að halda áfram og eflast," segir í pistli Friðriks Inga en hann má finna allan með því að smella hér.

Jón Arnór lék í aðeins 6 mínútur og 44 sekúndur í fyrsta leiknum á móti Svíum og var með eina þriggja stiga körfu á þeim tíma. Ísland var þremur stigum yfir í leiknum þegar hann þurfti að yfirgefa völlinn.

Jón Arnór hefur verið óheppin með meiðsli undanfarin ár, meiddist illa á baki í hitt í fyrra og svo meiddist hann á hné í fyrra.

Íslenska landsliðið hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á NM á móti Svíum og Finnum og munar þar miklu um fjarveru Jóns Arnórs. Liðið mætir Dönum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×