Frjálsíþróttasamband Íslands hefur ákveðið að senda Kristinn Torfason úr FH og Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni á Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum sem fram fer í borginni Daegu í Kóreu og hefst síðar í þessum mánuði.
Ásdís náði lágmarki bæði fyrir HM og Ólympíuleikana þegar hún kastaði 59,12 metra á móti í Reykjavík í byrjun þessa mánaðar. Sá árangur ætti að geta dugað í úrslit, en á síðustu mótum hafa 58 metra köst nægt til að komast í úrslitakeppnina.
Ásdís keppir í undankeppninni fimmtudaginn 1. september næstkomandi um kl. 11:25 að staðartíma. Ásdís á best 61,37 metra sem jafnframt er Íslandsmet í greininni, sett á Laugardalsvelli 2009. Hún komst í úrslit á EM í fyrra og keppti á HM í Berlín fyrir tveimur árum.
Nýleg meiðsli Ásdísar munu hvorki há henni við undirbúning eða keppni á mótinu, en hún hefur farið í skoðun hjá sérfræðilækni úr fagteymi ÍSÍ.
Kristinn Torfason hefur staðið sig vel á þessu ári og hefur sýnt mikið öryggi á mótum ársins. Innanhúss á hann best 7,77 metra frá því í Bikarkeppni FRÍ í vetur og þá stökk hann 7,73 metra á Evrópumeistaramótinu í París og 7,57 mtra á Reykjavík International Games í janúar.
Kristinn hefur stokkið lengst 7,67 metra utanhúss í ár frá því á Smáþjóðaleikunum en hann stökk þó reyndar 7,82 metra á Meistaramótinu á Selfossi í of miklum meðvindi.
Kristinn keppir á HM nú í fyrsta sinn, en hann tók þátt á EM í vetur eins og áður sagði. Undankeppnin í langstökki er næstum því á sama tíma og hjá Ásdísi í spjótkastinu.

