Fótbolti

Verkfallsaðgerðum lokið á Spáni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Keppni í spænsku úrvalsdeildinni hefst aftur um helgina. Hér eigast við Real Madrid og Athletico Bilbao.
Keppni í spænsku úrvalsdeildinni hefst aftur um helgina. Hér eigast við Real Madrid og Athletico Bilbao. Nordic Photos / AFP
Verkfalli knattspyrnumanna á Spáni hefur verið aflýst og getur keppni í spænsku úrvalsdeildinni því hafist um helgina. Aðilar sátu á sáttafundi í alla nótt.

Deilan snerist um ógreidd laun knattspyrnumanna í efstu tveimur deildunum á Spáni. Samtök knattspyrnumanna vildu tryggja að félög sem eiga í fjárhagserfiðleikum gætu staðið við skuldbindingar sínar og launagreiðslur.

Fundur hófst á milli aðila síðdegis í gær og lauk honum ekki fyrr en tólf klukkustundum síðar. Eftir hann sögðust aðilar vongóðir um að hægt væri að ná sáttum og nú hefur það verið staðfest.

Fyrsta umferð spænsku úrvalsdeildarinnar átti að fara fram um helgina en var frestað. Er það í fyrsta sinn í 27 ár sem tímabilið á Spáni hefst ekki á tilsettum tíma.

Lykilatriði í því að samningar náðust var að forráðamenn spænsku deildarinnar voru tilbúnir að tryggja það að leikmenn fái greiddar þær 50 milljónir evra sem 200 leikmenn þeirra eiga inni hjá sínum félögum vegna ógreiddra launa. Leikmenn hafa líka hér eftir leyfi að losna undan samningum fá þeir ekki laun sín greidd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×