Íslenski boltinn

Katrín: Líður eins og eftir tap

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Katrín Jónsdóttir fyrirliði Íslands leið eins og Ísland hafi tapað fyrir Belgíu eftir markalausa jafnteflið á Laugardalsvellinum í kvöld.

"Þetta var ekki nógu gott hjá okkur í dag, því miður. Mér finnst við vera með betra lið en Belgía en við náðum ekki að sýna það nógu vel. Þetta er rosalega svekkjandi," sagði Katrín.

"Við sköpum okkur rosalega mikið af færum en því miður var þetta stöngin út. Það er allt liðið sem tapar þessum leik, það er ekki bara þar sem við töpum leiknum. Manni líður virkilega eins og maður hafi tapað leiknum en það má ekki gleyma því að þetta er eitt stig. Við leiðum ennþá riðilinn og það eru allir möguleikar ennþá í þessu."

"Þetta er almennilegt spark í rassgatið og þegar við förum út í október þá kemur ekkert annað til greina en tveir sigrar," en Ísland mætir Ungverjalandi og Norður-Írlandi ytra í október.

"Ég vil ekki meina að það hafi verið neitt vanmat í hópnum. Við undirbjuggum okkur fyrir þennan leik eins og alla aðra leiki og við vissum að Noregsleikurinn myndi ekki gefa okkur neitt. Af hverju boltinn fór ekki inn í dag, ég hef ekki útskýringu á því. Svona er þetta stundum, því miður."

"Þær sköpuðu sér mjög lítið en þær eru með agaðan varnarleik, eru þéttar og berjast og uppskáru þetta stig vegna þess," sagði Katrín að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×